Litir

Litir KEF

Keflavíkurflugvöllur er tengipunktur Íslands við umheiminn. Til að skapa tengingu við uppruna og rætur okkar út á við sækjum við innblástur í einkennisliti okkar Íslendinga, fánalitina sem vísa í eld og ís, himin og haf. Yfirbragðið er því bersýnilega íslenskt en því til viðbótar höfum við svartan lit og hlýjan gylltan jarðlitatón sem veita hugrenninga­tengsl við þá gæðaþjónustu sem við veitum.

Litaflóran

Nöfn litanna sækjum við í flugsögu okkar Íslendinga, þá sér í lagi í nöfn þeirra flugvéla sem mörkuðu tímamót í flugferðum okkar út fyrir landsteinana.

Algengasta litasamsetningin í útliti KEF er Leifur (svartur), Hrímfaxi (hvítur) og Geysir (blár). Litirnir Gullfaxi (gylltur) og Hekla (rauður) eru notaðir við sérstök tilefni, t.d. sem gátlitir þegar þarf að kalla eftir tafarlausri athygli eða þegar efni er sett í hátíðarbúning.

Aðallitir

Aðallitir KEF eru Leifur (svartur), Hrímfaxi (hvítur) og Geysir (blár).

  1. Leifur

    Svartur og hvítur litur fela í sér rými og andrými, vigt og léttleika, allt og ekkert. Andstæður sem í sameiningu skapa hlutföll en jafnframt hlutleysu.

    • HEX #101010
    • RGB 16 16 16
    • CMYK 5 0 0 95
  2. Hrímfaxi

    Hvítur litur vekur upp hugmyndir um hreinleika, skýrleika, sakleysi og rými en svartan lit tengjum við hins vegar gjarnan við fágun, þyngd og alvarleika.

    • HEX #FFFFFF
    • RGB 255 255 255
    • CMYK 0 0 0 0
  3. Geysir

    Blár litur hefur sterk huglæg áhrif. Hann minnir á ró og frið en einnig skarpa hugsun og bætta einbeitingu. Að auki hefur blár almenn hugrenninga­tengsl við traust, öryggi, áreiðanleika og kyrrð.

    • HEX #004DF4
    • RGB 0 77 244
    • CMYK 90 48 0 0

Aukalitir

Gullfaxi (gylltur) og Hekla (rauður) eru notaðir við sérstök tilefni, t.d. sem gátlitir þegar þarf að vekja athygli eða þegar efni er sett í hátíðarbúning.

  1. Gullfaxi

    Gylltur litur er afar efnislægur og gildishlaðinn litur. Þar sem hann er efstur í virðiskeðjunni stendur hann fyrir gæði, afrek og hátíðleika. Jafnframt er hann jarðlitur sem gefur okkur ró og mýkt.

    • HEX #BB8B3F
    • RGB 187 139 63
    • CMYK 4 53 100 8
  2. Hekla

    Rauður litur er kraftmikill og hefur þann eiginleika að virðast vera nær en aðrir litir. Rauður grípur athygli okkar fyrstur allra og er því algengasti gátliturinn í umhverfi okkar, t.d. í samgöngum og víðar.

    • HEX #DB2A12
    • RGB 219 42 18
    • CMYK 0 87 85 0

Litatónar

Hver litur hefur stigvaxandi styrkleikaróf, frá ljósum tónum yfir í dökka, sem hægt er að nota samhliða upphaflega litnum. Þetta getur nýst í myndskreytingar þegar þarf að gefa efninu dýpt með mismunandi tónum, í súlurit og gröf þar sem stigsmunur er á milli gilda eða til að aðgreina ólík viðfangsefni.

Flæðandi litir

Flæðandi litir (e. gradient) geta gagnast okkur við gerð bakgrunna fyrir ýmis tilefni. Þetta má nýta á kaflaglærur, sem grunn fyrir lykilsetningar o.s.frv. Litaflæðið minnir á himinhvolf, norðurljós og skýjafar. Róandi áferð og mýkt færa okkur úr annríkinu í öruggt skjól.