Merki KEF
Merki Keflavíkurflugvallar er skammstöfun og alþjóðlegt kennimark flugvallarins, KEF. Það byggir á steinskriftarletrinu KEF Oasis frá íslensk/indversku leturstofunni Universal Thirst.
Merkið er samsett úr þremur þykktum letursins. Stafaleggir (lóðréttu leggirnir) eru í bold, leggir (skáleggir) í regular og þverleggirnir (láréttu leggirnir) í light. Nýtt merki er hannað með breytt landslag í miðlun að leiðarljósi og nýtur sín sérstaklega vel á stafrænu formi.
Viðskeyti
Viðskeyti við merkið er ætlað til notkunar utan flugvallarins eða þar sem talin er þörf á frekari útskýringu við KEF heitið. Merkið með viðskeyti er til á íslensku og ensku. Viðskeytið er í hástöfum í letrinu KEF Oasis Light og er ávallt staðsett hægra megin við KEF merkið.
Merkið með viðskeyti er aðallega ætlað fyrir fyrstu kynni við flugvöllinn, t.d. á birtingarmiðlum utan flugvallar, vefsíðu, nafnspjöldum o.fl.
Merkið birtist að jafnaði með íslensku í forgangi. Í skjábirtingum er hægt að hreyfa merkið á þann hátt að viðskeytið breytist úr íslensku í ensku og svo koll af kolli. Á prentuðu efni er íslenska merkið valið ef birting þess er bæði miðuð að Íslendingum og erlendum gestum. Ef birting prentefnis er aðallega miðuð að erlendum gestum er enska merkið valið.
KEF merkið án viðskeytis er aðalmerki Keflavíkurflugvallar. Þegar komið er inn á flugvöllinn og gera má ráð fyrir að gestir viti hvar þeir eru staddir skal nota KEF merkinguna án viðskeytis.
Hreyfing merkis
Birtingarmynd KEF ásýndarinnar er að stórum hluta í stafrænni mynd. Hreyft merki er þar stór þáttur í að glæða ásýndina lífi og draga augað að skilaboðunum.
Birtingarmynd
Merkið birtist á fjölmörgum snertiflötum og í mismunandi miðlum. Birtingarmynd þess er ólík eftir því hvort efnið er birt innan flugvallarins eða utan hans, t.d. á samfélagsmiðlum, ljósvakamiðlum eða umhverfismiðlum.